Um UNM

Ung nordisk musik, eða UNM, er hátíð og vettvangur sem stofnaður var af ungum tónskáldum í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi við lok seinna stríðs. Samstarfið varð til í þeim tilgangi að auka vægi samtímatónlistar í menntakerfi og tónlistarmenningu aðildarlandanna og til að styrkja þekkingu og kunnáttu í greininni þvert á landamæri.

 

Hátíðin hefur síðan 1946 átt sér stað árlega, en aðildarlöndin skiptast á að hýsa hana. Á henni safnast saman tónskáld frá öllum aðildarlöndum og hlýða á flutning verka hvers annars. Auk tónleikadagskrár eiga sér ár hvert stað ýmsir annars konar atburðir sem skipulagsnefnd hverju sinni mótar. Þeir geta meðal annars miðað að þekkingardeilingu og samvinnu ýmiss konar; má þar nefna fyrirlestra og vinnustofur sem dæmi. Sterkasta taugin í starfi UNM er þannig samvera og samtöl ungs skapandi fólks yfir tæplega vikulanga hátíð.


Ísland gerðist aðili að samstarfinu og tók fyrst þátt í hátíðinni árið 1974, og var gestgjafi hennar í fyrsta sinn árið 1977. Í gegn um árin hefur listafólk héðan í senn tekið þátt í hlutverki tónhöfunda, flytjenda, fyrirlesara og fleira.

 

Eins og starfinu er háttað núna stendur Íslandsdeild UNM sjálfstætt og í samráði og samtímis hinum landsdeildum UNM fyrir vali 7 verka eftir jafnmörg tónskáld ár hvert. Valið er úr umsóknum sem höfundar geta sent inn frá miðjum maí og út júní ár hvert. Viðmið um umsóknir og umsækjendur má finna undir liðnum „Taka þátt“ á þessari síðu. Valið er síðan framkvæmt af dómnefnd sem stjórn Íslandsdeildar velur, en allar persónuupplýsingar eru fjarlægðar úr innsendum verkum og valið því nafnlaust.

 

Þau 35 tónskáld sem valin eru frá aðildarlöndunum fimm koma síðan saman á hátíðinni sem að jafnaði fer fram seinni hluta ágústmánaðar ár hvert. Hátíðin árið 2019 fer fram í Piteå, Svíþjóð, og hátíðin 2020 í Tampere, Finnlandi. Síðast fór hátíðin fram á Íslandi árið 2017, og snýr aftur hingað árið 2022. Nýbreytni í starfi Íslandsdeildar er síðan árlegt tónleikaverkefni sem ýtt var úr vör í ágúst 2018, á tónleikunum „Tvístrun“ sem haldnir voru í samstarfi við kammersveitina Elju. Það átti sér framhald á tónleikunum „Tvinnu,“ 25. júní 2019 í Reykjavík.