LOKAÐ HEFUR VERIÐ FYRIR NEÐANGREINT UMSÓKNARFERLI, EN UPPLÝSINGUM UM ÞAÐ HALDIÐ TIL HAGA HÉR TIL VIÐMIÐUNAR.
NÆST VERÐUR OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR
UM ÞÁTTÖKU Í UNM 2021 Í DANMÖRKU VORIÐ 2020.

AUGLÝST EFTIR UMSÓKNUM

UNM 2020: Tampere, Finnland

Íslandsdeild UNM auglýsir eftir tón- og hljóðverkum til þátttöku í tónlistarhátíðinni Ung Nordisk Musik árið 2020, sem haldin verður í Tampere, Finnlandi, 24.-30. ágúst. Sjö verk verða valin til þátttöku á hátíðinni, en valið er framkvæmt nafnlaust af hlutlausri dómnefnd. Hvert Norðurlandanna (Ísland, Noregur, Finnland, Svíþjóð og Danmörk) sendir jafnmarga tónhöfunda til þátttöku á hátíðinni ár hvert. Öll verk sem setja hljóð í brennidepil eru gjaldgeng til þátttöku. Getur það átt við tónsmíð sem styðst við raddskrá, rafverk, innsetningu, gjörning og svo framvegis. Allar samsetningar hljóðfæra, flytjenda og miðla eru mögulegar.

Umsóknarfrestur er til 30. júní næstkomandi, kl. 23:59.

 

SKILYRÐI FYRIR UMSÆKJENDUR

 • Umsækjendur skulu vera fæddir 1990 eða síðar. Þó er gerð undantekning á aldursskilyrðum ef umsækjandi er enn í námi og hefur ekki lokið mastersgráðu í viðeigandi fagi.

 • Ef umsækjandi er ekki íslenskur ríkisborgari verður hann að hafa skráða búsetu á Íslandi þegar umsókn er send inn.

 • Hver umsækjandi má vera þátttakandi á samtals fimm UNM-hátíðum, burtséð frá því fyrir hvaða land hann er fulltrúi. Þannig má t.d. íslenskur ríkisborgari sem býr í Finnlandi ekki taka þátt fimm sinnum fyrir Ísland og svo aftur fimm sinnum fyrir Finnland.

 • Ef umsækjandi getur af einhverjum ástæðum sótt um þátttöku á UNM í öðru landi en Íslandi, má hann einungis sækja um í öðru hvoru landinu. Ef umsækjandi sækir um í tveimur löndum fyrir sömu hátíð, falla báðar umsóknir samstundis úr gildi.

 • Hver umsækjandi má í mesta lagi senda inn þrjú verk.

 • Umsóknin skal vera nafnlaus - sjá nánar í Til að sækja um.

 • Umsækjandi getur hvort sem er verið einstaklingur eða hópur - sjá nánar um reglur um hópumsóknir og kynjakvóta.

TIL AÐ SÆKJA UM

Einungis er tekið á móti rafrænum umsóknum. Íslandsdeild UNM getur ekki tekið ábyrgð á því ef gögn sem fara ekki eftir eftirfarandi viðmiðum glatast. Þar sem dómnefnd þessa árs er ekki íslenskumælandi mun stjórn Íslandsdeildar UNM senda fylgiskjöl með þýðingum á öllu textaefni með umsóknum. Ef umsækjandi á afrit af verki sínu á ensku er það vel þegið.

 

Vinsamlegast safnið öllum gögnum í eina skrá. Skráin skal innihalda eftirfarandi:

 1. Tengiliðareyðublað sem finna má hér: http://bit.ly/unm20-tengilidur2.

 2. Eina skrá fyrir hvert verk umsækjenda. Þar skulu tekin saman verklýsingareyðublað, sem finna má hér http://bit.ly/unm20-verklysing, og allar viðeigandi upplýsingar um verkið, til dæmis raddskrá, flutningsleiðbeiningar, hljóðupptaka, myndbandsupptaka eða önnur viðeigandi gögn sem gefa góða mynd af viðkomandi verki.

 

Gæta skal vel að því að allar persónuupplýsingar séu faldar í 2. lið umsóknarinnar. Ber þar helst að nefna nafn höfunda á raddskrá en einnig „metadata,“ þ.e. nafn höfundar ef það er sýnilegt í upplýsingum í hugbúnaði á borð við VLC (hljóð- og myndbandskrár), og upplýsingagluggum stýrikerfis.

 

Sendið öll skjöl á tölvupósti til unmiceland[hjá]gmail.com undir efnislínunni “Umsókn 2020”. Við tökum gjarnan við niðurhalshlekk fyrir skrána, frá WeTransfer eða sambærilegri skýjaþjónustu, ef skráin er of stór til að hengja við tölvupóst.

 

DÆMI UM SNIÐ UMSÓKNAR

 

NÓTUR - Sendið nótur á PDF. Við mælum sterklega með því að láta hljóð- eða myndbandsupptöku fylgja með verkinu (eða midi-afspilun ef upptaka er ekki til staðar). Ef í verkinu er notast við hljóðskrár eða myndband, vinsamlegast látið þau skjöl fylgja með. Óþarfi er að senda skrár fyrir einstaka flytjendur að verkunum, t.d. hljóðfæraparta.

 

RAFVERK - Sendið hljóðskrá (mp3, aiff, wav) eða myndbandsskrá ásamt skriflegri lýsingu á verkinu. Ef verkið er fjölrása eða fyrir óvenjulega uppsetningu, vinsamlegast látið tæknilýsingu (e. technical rider) fylgja með.

 

ANNAÐ - Sendið skriflega lýsingu á verkinu ásamt tæknilýsingu (e. technical rider), sviðs- eða uppsetningaráætlun (e. stage plan) og önnur viðeigandi skjöl; hljóðupptöku, myndir, myndbönd, o.s.frv.. Vinsamlegast látið allar upplýsingar sem tengjast uppsetningu og framkvæmd verksins  fylgja umsókninni.

 

Ef vafi liggur á hvernig umsókn skal hagað, vinsamlegast hafið samband við unmiceland[hjá]gmail.com


 

HÓPUMSÓKNIR

Höfundar verka geta hvort sem er verið hópar eða einstaklingar. Um hópumsóknir gilda eftirfarandi viðmið:

Miðað er gróflega við þrjár tegundir umsækjenda:

 1. Einstaklingur - einn höfundur að verki, hvort sem verkið er flutt í samstarfi við annað tónlistarfólk eða ekki.

 2. Tónlistar- eða leikstjóri / listrænn stjórnandi - samstarfsverkefni eins aðalhöfundar og margra meðhöfunda.

 3. Margir höfundar - samstarfsverkefni þar sem enginn einn hefur meira höfundarvald en annar.

Hvert hópverk telst sem eitt verk fyrir hvern þátttakanda sem er meðhöfundur (tegund 2 eða 3). Þannig má umsækjandi sem tekur þátt í einu hópverki ekki senda inn fleiri en 2 önnur verk. Ef höfundur sækir um sem hluti af ólíkum hópum ber að fylla út nýtt tengiliðaeyðublað fyrir hvern hóp sem sækir um (sjá nr. 1 undir liðnum Til að sækja um).

 

Í tilfelli 1 og 2 eiga reglur um umsækjendur eingöngu við um aðalhöfund, en aðrir meðlimir hópsins geta verið frá hvaða landi sem er og þurfa ekki að uppfylla aldursskilyrði. Í tilfelli margra höfunda (liður 3) þarf að minnsta kosti þriðjungur hópsins að uppfylla skilyrði um umsækjendur. Þó er gerð undantekning ef helmingur þátttakenda eða fleiri eru frá norðurlöndum. Hópur sem nýtir sér þessa undantekningu má ekki sækja um í fleiri en einu landi með sama verk í einu, en erlendur (norrænn) meðhöfundur má þó sækja um með einstaklingsverk í heimalandi sínu sama ár og sá er norrænn meðhöfundur á íslandi (að því gefnu að innsend verk af öllu tagi sem höfundur tekur þátt í séu ekki fleiri en hámark í sínu landi).

Í tilfelli 2 og 3 skal tilgreina kyn allra þátttakenda og reiknast það með í reglur um kynjakvóta þátttakenda (sjá að neðan).

 

Ekkert hámark liggur fyrir á stærð hópa sem geta sótt um en hópar gætu þurft að fjármagna hluta ferða- og dvalarkostnaðar sjálfir. Slíkt getur verið gert í samráði við hátíðina ef að því skyldi koma.

 

FRAMKVÆMD

Dómnefnd samanstendur af tveimur fagaðilum með ólíkan bakgrunn sem stjórn Íslandsdeildar UNM velur. Mun hún fá verk allra umsækjenda send til umfjöllunar. Dómnefnd mun ekki hafa aðgang að persónuupplýsingum þar sem valið er nafnlaust. Dómnefndin velur í sameiningu og skilar af sér sætaröðuðum lista þeirra 7 verka sem þeim líst best á. Auk þeirra verka velur hún tvö til þrjú önnur verk sem þeim hugnast, sem flutt verða skyldi koma til forfalla eða ójafns kynjahlutfalls.

Íslandsdeild UNM er annt um að kynjajafnvægi og fjölbreytileiki einkenni þann hóp höfunda og verka sem verður fulltrúi Íslands. Viðmiðum um kynjakvóta verður breytt í ár svo gert sé ráð fyrir mögulegum hópumsóknum.

Í kynjakvótann reiknast allir þátttakendur sem teljast höfundar og meðhöfundar verka og tekur hvert verk eitt sæti. Þannig tekur verk eftir einn kvenkyns höfund og einn karlkyns hálft pláss af hvorum kynhóp í kvótanum. Kynjum verður skipt í tvo hópa sem hvor um sig geta ekki farið yfir 60%. Hóparnir eru annars vegar höfundar sem kenna sig karlkyns og hins vegar höfundar sem kenna sig kvenkyns auk kynsegin höfunda. Höfundar tilgreina kyn sitt í tengiliðareyðublaði. Ef hagræðingar á niðurstöðum til að koma til móts við kynjahlutfall er þörf fellur það í hlut stjórnar Íslandsdeildar UNM að framfylgja þessum reglum, annað hvort með hliðsjón af sætavali og/eða í beinu samráði við dómnefnd. Eingöngu í síðastnefnda tilfellinu er upplýsingum um kyn viðkomandi höfunda deilt með dómnefnd.

 

ANNAÐ

Íslandsdeild UNM styrkir valda höfunda um ferðir og gistingu á hátíðinni, að hámarki kr. 75.000. Valdir höfundar skulu vera viðstaddir alla hátíðina.

 

Við svörum gjarnan frekari fyrirspurnum í gegn um netfangið unmiceland[hjá]gmail.com.