Ögnun_dagskrá_loka_fix_fix_fix.jpg

Örnólfur Eldon Þórsson og hin eistneska Krõõt-Kärt Kaev hafa starfað saman sem tónskáldatvíeyki síðan um vorið 2017. Þau kynntust fyrst í Tallinn 2014 en stunduðu svo bæði tónsmíðanám við tónlistarháskólann í Hannover og hafa verið búsett í Þýskalandi síðan. Þau skrifuðu verkið "conduit/einzundzweiunddreiundvierund" fyrir Ögnun og nýttu sér 13 hljóðfæraleikara en verkið er fyrir flautu, klarínett, fagott, básúnu, harmonikku, píanó, slagverk, rafgítar, tvær fiðlur, víólu, selló og kontrabassa.

 

„Kveikjan að verkinu voru ákveðnar ritmapælingar sem við höfum verið að velta fyrir okkur, það eru ritmar – og raunar lengdargildi –, sem liggja á milli þeirra ritma og lengdargilda sem við könnumst við úr okkar dags daglega tónumhverfi. Þessir ritmar geta stundum verið mjög einfaldir í eðli sínu en á sama tíma alls ekki auðvelt að hafa eftir, þegar snerpa í tímasetningu og samhæfingu flytjendanna skiptir öllu máli. Þá er miðlun ritmans einnig vandamál því þeir eru framandi hefðbundinni nótnaskrift og ekki hlaupið að því að heyra þá fyrir sér. Við ákváðum að reyna að slá tvær flugur í einu höggi með því að notast við hreyfinótnaskrift sem gæti hvort tveggja:

samhæft flytjendur með lágmarks skekkjumörkum; og miðlað öllum þeim nótnagildum sem við vorum að fást við. 

Þannig taka nóturnar eiginlega við því hlutverki stjórnandans sem snýr að því að leiða flutninginn til lykta,

en þó auðvitað ekki þau atriði sem lúta að túlkun og þess háttar. Því er enn nauðsynlegt fyrir alla flytjendur að hafa eyrun opin og hlusta inn í hljóminn.“

 

„Án þess að fara allt of djúpt ofan í öll fræðin á bak við þessar hugmyndir um ritma, þá má benda á það að hefðbundin nótnaskrift, og þar af leiðandi sjálf tónlistin sem hún táknar,  reiðir sig nær eingöngu (með nokkrum undantekningum þó) á það að skapa ritmísk sambönd milli lengdargilda sem standa í hreinum hlutföllum byggðum á heilum tölum.  Venjulega er notuð viðmiðunareining (samanber Tempó) sem svo getur verið margfölduð með jákvæðum og neikvæðum veldum af tveimur, og má svo leggja saman að vild til að ná fram öllum mögulegum heiltölu margfeldum og almennum brotum tiltekinnar grunneiningar. Í grunninn er þetta bara sambærilegt við það sem menn þekkja sem ”ti-tí-ta“, en tríólur og aðrar -ólur má svo finna á hinni hlið sama penings. Okkur langaði hins vegar að setja peninginn uppá rönd, sjá hvort hann gæti rúllað eitthvað og leitt okkur á nýjar slóðir. Þá erum við að hugsa ritmann meira sem atburðarás á algjörlega samfelldri tímalínu sem hefur enga sérstaka viðmiðunareiningu. Ritmarnir sem við vorum að fást við voru þá sumir byggðir á nákvæmlega mældri tímalengd á mill tveggja nótna, en næsta lengdargildi þá til dæmis leitt af því fyrra með því að margfalda með rótinni af tveimur eða öðrum óræðum tölum.“

 

„Þetta þekkja menn úr raftónlistarsögunni, þar sem menn, til dæmis má nefna Stockhausen um miðbik síðustu aldar, voru að mæla sína ritma og lengdargildi í sentimetrum af segulbandi. Segulbandið var leikið á hraða sem nam X mörgum sentimetrum á sekúndu. Í rauninni er þetta svipað í okkar verki 'conduit', nema þá eru það nóturnar sjálfar sem hreyfast yfir skjáinn, um það bil fimm sentimetra á skúndu. Eins og titillinn bendir til þá fjallar þetta að einhverju leyti um flæði tímans og verkið er þá eins og farvegur, á meðan það eru nóturnar sjálfar sem draga bátinn. Flytjendur nálgast nóturnar á vefsvæði með hjálp tölva eða snjalltækja, þar skrá þeir sig inn og bíða eftir að nóturnar fljóti af stað. Tölvutæknin gerir kleift að láta fjölda mörg tæki samstillast af mikilli nákvæmni, en skekkjan getur verið aðeins örfáir þúsundustu úr sekúndu.“

 

Samstarf þeirra er athyglisvert þar sem þau eru algjörlega samtvinnuð í tónsmíðaferlinu og að eigin sögn útiloka hvers konar stéttaskiptingu.

 

„Það er nú ekki svo algengt að tónskáld vinni saman að verkum, en það eru samt alveg nógu mörg dæmi.

Líklega er það háttur samstarfsins okkar sem er ekki svo dæmigerður, en við ákváðum að skipta ekki með okkur verkum, heldur að við myndum taka hvert einasta atriði til umfjöllunar og ræða það í þaula þar til við kæmumst að samkomulagi um hvernig eitthvað eigi að vera. Þetta hljómar mjög augljóst, en þetta hefur stundum verið ansi snúið. Maður þarf bara að vera tilbúinn að láta egóið víkja, gera málamiðlanir og einbeita sér að því að hlusta á hvað það er sem verkið þarf. Þetta er mjög lærdómsríkt og gefandi, maður þarf að gagnrýna og taka gagnrýni,

endurskoða og brjótast útúr sínum vana og mynstrum, en þá getur samstarfsaðilinn stundum bent manni á hvar þessi atriði er að finna. Það opnar þá á nýjar leiðir, sem maður annars færi sennilega ekki á eigin spýtur.“

 

Á UNM 2020 í Tampere verður flutt fyrsta samstarfsverkefni þeirra, kórverkið "bap" (borið fram sem "varabúbbluhljóð") frá 2017.

„Þar vorum við líka að spá mikið í ritma, en á svolítið annan hátt. Þar er unnið með þrenns konar ritma strúktúra:

það er hinn hefðbundni ritmi sem stjórnað er utan frá af kórstjóranum; svo er það ritmi sem einstaklingar innan hópsins þurfa að koma sér saman um; og loks ritmi sem hver og einn túlkar með sínu nefi. Sem sagt þessir ritmar eru hver á sinn hátt háðir mismunandi stigveldum (eða hírarkíu), frá yfirvaldi stjórnandans,til sjálfræði einstaklingsins, yfir jafnræði innan hópsins. Svo má nefna að skipting kórsins er af handahófi og tekur kyn og raddgerðir út úr jöfnunni. Jafnframt er enginn eiginlegur texti sem liggi til grundvallar verkinu, heldur séu mál-

hljóðin einfaldlega meðhöndluð eins og hvert annað tónefni en þar eru sérhljóðin og samhljóðin einnig jöfn, sem og fleiri búkhljóð.“

 

„Flutningur verksins verður með örlítið breyttu sniði í ár. Það þarf að taka kóvíð-19 með í reikninginn þegar á að stilla kórsöngvurunum upp, það er að þeir haldi hæfilegri fjarlægð sín á milli og auðvitað við áheyrendur, en þá verður einnig fátt í salnum. Það hentar þó raunar ágætlega þessu verki að skipta kórnum upp í sóttvarnarsvæði,

enda er kórinn hugsaður í átta hópum sem á að dreifa um tónleikarýmið. Svo getur verið að söngvararnir þurfi að notast við andlitsgrímur eða svokallaða hrákaskerma, til að koma í veg fyrir að það berist nokkuð nema bara hljóð með söngnum.“

 

„Hlutverk grasrótarinnar í nýrri tónlist hlýtur að vera hið sama og hlutverk hennar á öðrum stöðum,  það er að veita ríkjandi hugmyndafræðum aðhald með gagnrýni svo ekki komi til stöðnun. Grasrótin þarf að setja hlutina í samhengi, hvort sem er við samtímann eða söguna, gefa tækifæri til að sjá ekki bara nýjungar heldur líka gamla hluti í öðrum ljósum. Þetta á jafnt við um stofnanir og innviði, og almenning. Í sambandi við nýja tónlist þá þarf að krefja hlustendur um að fara aðeins undir yfirborðið og spyrja sig hvað sé tónlist og hvað sé fallegt. Það þarf ekki að skilja heldur bara fatta, svo vitnað sé í (Pétur Grétarsson) umsjónarmann Hátalarans á Rás 1. Það fattar bara hver með sínum hætti.“

 

Framundan hjá Kärt og Örnólfi eru flutningar til Graz í Austurríki til náms og starfs og mögulega að skrifa tónlist fyrir kvikmynd, sem skýrist á næstu misserum.  

Ögnun_dagskrá_loka17.jpg