Katrín Helga Ólafsdóttir, einnig þekkt sem K.óla er 24 ára tónskáld úr Hafnarfirði. Hennar verk flétta saman hreyfingu og hljóðfæraleik og fyrir Ögnun samdi Katrín verkið Bind-yndi f. 9 hljóðfæraleikara, þar á meðal hana sjálfa og skúlptúr.

 

„Skúlptúrinn á að virka þannig að hljóðfæraleikaranir eru tengdir við annan hljóðfæraleikara sem er hinum megin í herberginu. Skúlptúrinn er uppi í lofti og síðan geta þeir togað í hvern annan og þetta getur snúist og alls konar skemmtilegt. Það sem mér finnst skemmtilegt við þetta verk er hvað þetta er í rauninni mikil samvinna og hlustun. Þetta er rosa mikið reglur sem þarf að muna og í raun mjög einfalt. Flytjendurnir eru partur af verkinu og geta breytt því upp að vissu marki og tekið inn hvert annað og það er eiginlega jafn mikilvægt að geta horft á það og hlustað á það“

 

„Titillinn er Bind-yndi - eins og yndislegt. Það vera bundinn og það að vera í sambandi við aðra þetta er svo mikið eitthvað sem maður leitar í, hvort sem það er við vini eða fjölskyldu. Við erum öll tengd fullt af fólki og erum saman í alls konar hvort sem það er vinnustaður eða þjóðfélag, risastórt mengi af fólki sem er tengt saman.“

 

„Mér finnst sjálfri rosalega sko... má ég segja þetta­—mér finnst leiðinlegt að skrifa nótur og mér finnst gaman að hugsa tónlist á kannski meira—sérstaklega flutning— sem meira ólínulegt ferðalag sem gæti farið hingað og þangað og geta breyst. Ég pæli í flutningi sem meira flæði, að það gæti allt gerst og gæti breyst og það gæti eitthvað komið upp á og allir þurfa bara að taka það inn og vinna með það.“

 

Á UNM í Tampere í ágúst verður verkið hennar „Hlaupari ársins“ flutt. Verkið er fyrir kammersveit auk hlaupara á hlaupabretti, tímavörð, mikilvæga manneskju og ljósmyndara. Verkið var samið fyrir viðburð UNM um sumarið 2019, Tvinna.

 

„Verkið byggist upp á því að það er hlaupari á hlaupabretti sem getur sagt ákveðnar setningar, 8 talsins og ég þýddi þær að hluta til á finnsku fyrir hátíðina þannig að hlauparinn þar talar bæði á finnsku og ensku svo það verður ábyggilega skemmtilegt.“

 

“Eftir því hvað hann hleypur hratt, þá fylgja hljóðfæraleikararnir honum , semsagt tempóinu og eftir hvað hann segir þá breyta þau því hvað þau spila.“

 

„Verkið verður flutt í finnskri líkamsræktarstöð og meira að segja var pæling - þar sem að í endanum á verkinu er partur þar sem kemur mikilvæg manneskja og þakkar hlauparanum fyrir, tekur í hendina á honum og tekin ljósmynd, confetti og svona - þá var einhver hugmynd að þau myndu reyna að fá bæjarstjóran í Tampere til að vera sá aðili! Það væri algjör snilld ef einhver finnskur bæjarstjóri væri með hlutverk í verkinu mínu!“

 

UNM 2020 verður haldin með breyttu sniði í ár vegna COVID-19 rástafanna. Dagskráin verður send út í gegnum streymi en flestir þátttakendur geta ekki mætt á staðinn, eins og hefð er fyrir, vegna ferðatakmarkanna.

 

„Það verður svolítið skrýtið því ég verð ekki þarna sjálf og ég sé þetta bara á netinu. ég held að hingað til hafi ég verið viðstödd alla flutninga á verkunum mínum, þetta verður í fyrsta skipti sem ég verð ekki á staðnum og bara einhver finnskur hlaupari að öskra einhver orð.“

 

„Ég er nýlega útskrifuð úr LHÍ úr tónsmíðum og ég tók saman einhver verk sem ég hef skrifað og ég sá alveg ákveðin þráð í þeim verkum sem var litir - ég nota liti mjög mikið til að einfalda uppsetningu og svo nota ég ólínuleg skor: ef þetta gerist þá áttu að bregðast við því og spila þetta.

 

„Ég held að áhorfendur hafi gaman að því að sjá hreyfingu þó það sé kannski mismunandi í þessum verkum. Hlauparinn í raun hreyfist ekkert, hann er alltaf á sama staðnum - sem er kannski táknrænt fyrir að vera alltaf að reyna að komast eitthvert en vera alltaf á sama stað og svitna og svitna en hreyfingin í Bind-yndi er meira svona nýr möguleiki til að vinna með. Hreyfingin þar hefur tilgang því hljóðfæraleikararnir eru að labba í hring og labba yfir blöð þar sem standa tónhæðir og svo fer það eftir köflum og þau spila þá tónhæð þangað til þau koma á næsta blað eða þá að þau spila stutt og svo labba áfram.“

 

„Ég nýti hreyfinguna á þann hátt að hún er ekki bara hreyfing til að vera hreyfing, hún er hluti af verkinu. Í hlaupari ársins, þá er hún notuð til að fá hryn, taktinn í því að vera hlaupa. Tilgangurinn með hreyfingunni er partur af verkinu en ekki bara eitthvað "gimmick"“

 

Á döfinni hjá Katrínu er að skrifa verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands í gegnum verkefni þeirra Ung-Yrkju þar sem tónsmíðanemendur eða nýútskrifuð tónskáld fá tækifæri til þess að semja fyrir sveitina.

 

"Þar er hugmynd mín að vinna með umferð - mér finnst umferð mjög skemmtileg leið til þess að lýsa hvernig komið er á einhverju skipulagi á óreiðu af því að allir eru að fara frá A til B og fara mismunandi leiðir á mismunandi tímum en mér finnst það spennandi hugsunarháttur. Mig langar líka til þess að þeir sem spila verkið finnist það gaman. Mér finnst það mikilvægt. En ég veit ekki alveg hvernig ég á að sannfæra fólk í Sinfó sem er búið að æfa á hljóðfærin sín í 8 tíma á daga í 40 ár - og ég er að segja þeim að vera bíll.“

 

„Þetta er líka ákveðin hreyfing að reyna að komast frá A til B - það er ákveðin leið til þess að hugsa hluti hvort sem þú situr og ert að komast leið á einhverju skori - eða hvort þú sért í alvörunni að keyra í vinnuna.“

  • Instagram - White Circle
  • Twitter - White Circle
  • White Facebook Icon