Ögnun_dagskrá_loka5.jpg

Hildur Elísa Jónsdóttir og er myndlistarmaður og tónskáld. Hún lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík á klarinett 2015 og tók svo u-beygju og lauk BA-prófi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands síðasta sumar, eða 2019.

"Í verkum mínum vinn ég með þetta tvennt, blanda því svolítið saman. En ég svona elti yfirleitt bara það sem verkið kallar á, eða biður um, og það er eðlilega bara það sem ég þykist kunna eða kann, sem eru tónlist og myndlist.

 

"Ég vil helst vinna þannig að þú getir ekki sagt að verkið sé annað hvort myndlist eða tónlist, heldur að þetta sé einhvers konar blanda beggja. Bara svona einhvernvegin óskýra mörkin á milli listformanna ef það mætti orða það þannig. Minn helsti miðill eru gjörningar, það er eigilega í öllum verkum mínum eitthvað performatíft element, já, svona gegnumgangandi."

 

Hildur samdi og vann tón- og myndbandsverkið "Nú erum torvelt" á vinnustofu UNM í janúar 2020 og var það frumsýnt á Ögnun 9. júlí sama ár. Verkið er flutt af Jónasi Ásgeiri Ásgeirssyni harmonikkuleikara og er um 82 mínútur. Verkið má finna hér neðst á síðunni.

"Ég samdi verkið Nú erum torvelt fyrir tónleika Íslandsdeildar Ung nordisk musik, ÖGNUN, sem voru haldnir 9. júlí síðastliðinn. Ég byggði verkið á Sonatorreki Egils Skallagrímssonar, sem eru einhver 25 erindi og notaði til þess kerfi, svona handahófskennt kerfi. Kerfið er þannig byggt upp að ég paraði alla bókstafi íslenska stafrófsins við nótur úr Des-dúr í nokkrum áttundum, og svo einhver svona formerki og yfirfæri það svo á kvæðið. Þannig að hver bókstafur er nóta og hvert orð því hljómur eða hljómaklasi einhvern veginn og svo túlkaði ég bilið á milli orðanna sem þögn, eitt slag þögn. Úr verður einhver svona angurvær hljómasúpa með öndun.

 

Ég samdi verkið fyrir harmónikku af því að í höfðinu á mér hefur Egill Skallagrímsson alltaf verið nikkukall. Ef hann hefði verið til nokkur hundruð árum seinna hefði hann áreiðanlega spilað á harmónikku. En svo líka af því að harmónikkan, það er einhvern veginn hægt að spila svo margar nótur í einu og á svo víðu sviði, tónsviði, það hentaði þessu verki ákaflega vel. Ég hélt að verkið yrði svona tæpar tuttugu mínútur, en Sonatorrek er 25 erindi svo lokaniðurstaðan er 82 mínútur, sem Jónas Ásgeir alveg negldi í upptökum.

 

Við tókum verkið upp tvisvar sama daginn svo úr varð átta tíma tökudagur og svo varð seinni takan fyrir valinu. Og það einhvernvegin svona heyrist undir lokin hvað hann er orðinn þreyttur og bugaður en það á einstaklega vel við verkið og kvæðið og svona stemmninguna í því.

 

Miðað við að kerfið var sett upp handahófskennt koma glettilega oft fyrir dúr-hljómar, bara hreinir, í verkinu. Það er líka skemmtilegt að maður heyrir í, svona, maður heyrir erindamun, maður finnur fyrir því hvaða ljóðstafi hann er að nota, einhvernveginn. Og það svona litar, verkið verður einhvern vegin kaflaskipt eftir erindunum, af því að í einu erindi notar hann Þ meira en því sem var á undan og í öðru einhvern annan staf. Og það litar svolítið verkið.

 

Ég hef aldrei samið neitt fyrir harmónikku áður og fannst það vera eitthvað svona svolítið flókið. Mér finnst harmónikkur vera svona eins og Egill Skallagrímsson, flóknar og dálítið komplexeraðar. En ég fékk mikla hjálp frá bæði Íslandsdeildinni og svo Jónasi sjálfum, en ég fékk að senda honum fjögur drög að verkinu sem hann svo sendi til baka með leiðréttingum. Og svo gerðum við síðustu leiðréttingarnar á tökudag í nóturnar sem ég mætti með þangað.

 

Í verkinu, sem er myndbandsverk eins og er, situr Jónas á dýnu úti á miðju gólfi, svona svörtu umhverfi, hvít dýna, og situr svona á endanum á dýnunni og leikur á harmónikkuna og starir tómlega út í loftið. Mig langaði fyrst, eða sko verkið varð myndbandsverk af því mig langaði fyrst að það yrði leikið í lokrekkju og þá með mjólkurglas við hliðina á rekkjunni. En mér fannst það einhvern veginn vera of bein tenging við Egils sögu og þennan tíma svo ég ákvað að sleppa lokrekkjunni og mjólkurglasinu og er ákaflega ánægð með þá ákvörðun.

​Á UNM hátíðinni í Tampere 2020 verður einnig flutt verk eftir Hildi Elísu, einleiksverkið "Konzert für 

 

Úti í Tampere mun ég flytja verkið Konzert für Spielzeug und Schwimmbad eða „Konsert fyrir leikfang og sundlaug.“ Ég samdi verkið þegar ég var í skiptinámi í Luzern í Sviss. Ég hef alltaf einhvern veginn tengt háþýsku við fiðluleik, fiðlukonserta og svona eitthvað svona ótrúlega elaborate tónlist. En svo er svissþýskan aðeins öðruvísi, svona þykkari, og tengdi það alltaf einhvern veginn við víólur og áður en ég fór til Sviss hafði ég lært þýsku í þrjá mánuði í Berlín og var alltaf í Sviss að reyna að tala þýsku við alla sem gekk svona misvel, misbrösulega. Og í skólanum var mér svona strítt af kennurum, góðlátlega samt, og úr varð þetta verk. Þar sem mér fannst ég og þýskan mín í samanburði við þau og þeirra þýsku hljóma eins og drukknandi leikfang í sundlaug. Í verkinu gengur flytjandinn, eða einleikarinn, ofan í sundlaug og fer á kaf, alveg, þannig að hann þarf að anda í gegn um þar til gerðan leikfangalúður. Úr verður eintóna konsert með svona skemmtilega ljótum tón, en sundlaugin virkar sem einhvers konar undirleikur eða hljómsveit með. Ég hef flutt þetta verk bæði í sundlaugum og svo í uppblásinni sundlaug, en í Tampere verður það útsett fyrir stöðuvatn rétt utan við borgina.

 

Mér finnst mjög gaman að tala um þetta sem útsetningar þó ég sé í rauninni ekki að útsetja neitt, heldur bara að breyta um stað í rauninni. En mér finnst það einhvernveginn svona tengja þetta meirra inn í tónlistina að tala um útsetningar. Það gerir verkið einhvern veginn ennþá afkáralegra.

 

Hlutverk grasrótarinnar fyrir mér er náttúrlega bara svolítið að steyta hnefann við kynslóðirnar sem hafa farið á undan en það sem mér þykir spennandi í dag er samruni þessara listgreina, eða bara allra listgreina. Að óskýra mörkin á milli til dæmis tónlistar og myndlistar eða sviðslistar og myndlistar og einhvern veginn skapa eitthvað svona heildarlistaverk sem ekki er hægt að staðsetja á neinum einum stað."

 

Á döfinni hjá Hildi Elísu eru opin vinnustofa og sýningar í Gryfjunni í Ásmundarsal í haust. Svo verður frumflutt eftir hana verk í Mengi í október. Og svo næsta sumar verður hun´ staðarlistamaður á myndlistartvíæringnum í Tókýó og verður þar í nokkrar vikur.

Ögnun_dagskrá_loka17.jpg