Ögnun_dagskrá_loka7.jpg

Áslaug Rún Magnúsdóttir er nýútskrifuð sem tónsmiður frá Tónlistar Konservatoríunni í Árósum. Hún tók þátt í Ögnun með verkinu tttttear/s fyrir flautu, fagott, fiðlu, víólu og selló auk tölvu og myndbands

 

"ætli ég sé ekki að reyna að búa til einhverskonar hræðslu eða efa með því að hafa það svona höktandi, svona mörg t. Og svo kemur skástrik - s, svo þetta hefur kannski 2 merkingar, bæði sem tár, og líka vitnun í eitthvað sem er að falla í sundur"

 

"Verkið er í raun tveir flutningar í einu, bæði lifandi flutningur og vídjóverk. Myndbandinu er varpað fyrir ofan hljóðfæraleikarana og spilað á sama tíma og tónlistarflutningurinn. Hugmyndin er að búa til einhvern rugling milli þess sem er lifandi og þess sem er tekið upp framfyrir. Myndbandið sýnir næstum sömu atburðarrás og gerist á sviðinu en eftir því sem líður á verkið fara þessir tveir flutningar að stíga lengur í sundur frá hvor öðrum, en er samt haldið saman af tónlistinni. Ég er kannski að reyna að búa til einhverskonar parallel raunveruleika sem sker sig úr með litlum smáatriðum eins og í myndbandinu nota hljóðfæraleikarnir hnífa í stað boga þegar þeir spila á hljóðfærin, og látbragð hljóðfæraleikaranna breytist - það er annað í myndbandinu en það er í lifandi flutningnum. Hugmyndin var kannski að reyna að skapa einhverskonar átök eða spennu milli þessara tveggja miðla, en líka einhverskonar angurvært samspil, hringlaga blanda. Ég held að næst þegar verkið verður flutt væri gaman að reyna að ýkja það aðeins meira og leyfa þessum tveimur þáttum að trufla hvern annan meira. Búa til kannski meiri átök og ólgu þarna á milli."

 

"Ég hef mjög gaman af því að búa til augnablik sem verða trufluð um leið og þau eru að komast á flug. Eyðilögð af einhverju öðru af hljóði, hljóðfæri, hreyfingu eða þögn og þannig hristir maður aðeins upp í söguþræðinum. Myndar einhverja keðju af tengdum inngripum sem er svo verkið í heild. Hefðin hefur kannski verið svolítið þannig að allt þarf svolítið að leka saman í eitt með einhverri fullkomnunaráráttu og mixi, en ég held að þessir mismunandi þættir sem koma saman í tónsmíðinni þurfa ekki endilega að passa saman eða vera lóðaðir saman í einhverja ákveðna heild, heldur fá að vera eins og þeir koma fyrir. Ég er farinn að kalla þetta "non-binary" hugsun þegar kemur að tónsmíðum. Þar sem hlutir geta fengið að vera bæði - ekki annað hvort eða, og allt er svolítið fluid."

 

"Ég spila svolítið með rómantík í þessu verki líka, þar sem selló og víóla eiga mjög rómantískt dúó í lifandi flutningnum en í vídeóinu eru einhverskonar átök, eða barátta. En það fer samt allt vel."

 

Á UNM 2020 í Tampere verður flutt verk frá 2018, "Desire" fyrir strengjatríó og rafhljóð.

 

"Þar er ég að vinna með einhverskonar sjálfseyðingarhvöt og þrá. Þráin kemur aðallega frá hljóðfæraleikurunum. Í gegnum allt verkið eru þeir að berjast fyrir því að það heyrist vel í þeim, að tónlistin sem þeir eru að spila heyrist en hún kemst aldrei í gegnum þykkan vef af tölvueffektum og ef það heyrist er búið að breyta því í eitthvað annað, hún heyrist aldrei í sinni hreinustu mynd."

 

"Munurinn á þessum verkum er að í Desire er ég svolítið að stjórna þessum kaos sem ég bý til. Þar vinn ég aftur með rómantíska tónlist: strengjatríó. Þar kveiki ég og slekk fyrir hljóðnemana hjá hljóðfæraleikurunum. Þeir spila lágt og eru dempaðir en ég kveiki og slekk fyrir uppmögnuninni þannig að við heyrum aldrei allt verkið, það spilast undir og ég vel - eða tölvan ákvarðar svolítið líka hvenær við heyrum ákveðna frasa. Og úr því verður ný útkoma en það sem hljóðfæraleikararnir spila. Það sem þú heyrir sem áheyrandi er kannski samhengislaust, en þú býrð til þína eigin sögu úr því. Ég held það sé ákveðin tilhneiging hjá manninum að reyna að búa til eitthvað munstur úr óreiðu og þetta verk fjallar svolítið um það. En það sem hljóðfæraleikararnir eru að spila er eitthvað annað og þeir berjast fyrir að koma í gegn og það verður svolítil átök og drama, þar til verkið leysist upp í noise-utópíu."

 

"En það sem mér finnst skemmtilegt við þetta er að ég er að brjóta upp tíma. Við heyrum bara aðra hvora sekúndu. Hvað er að gerast í þessum tíma? Í þessum litlu tímabrotum sem við heyrum? Er hægt að fara dýpra ofan í þau og ég er að reyna að tengja það við það sem er að gerast núna, þessa skrýtnu tíma sem við lifum í núna."

 

"Hlutverk grasrótarinnar er kannski núna að leyfa hlutum sem koma upp að vera eins og þeir eru, frekar en að setja þá í eitthvað box, stinga upp á einhverjum stað eða mögulega betri útkomu. Ég held að það sé líka að gerast núna, þegar myndlistarmenn eru að gera tónlist og tónlistarmenn eru að gera myndlist og þá verður einhver skekkja þarna á milli og það er allt einhvernveginn allt mögulegt - og fegurðin liggur í þessum möguleikum, þessum mögulegu útkomum sem enginn hafði getað spá fyrir um. Við þurfum svolítið átta okkur á og treysta og styrkja eitthað sem hefur þann möguleika að vera eitthvað annað og leyfa því að vaxa og vera. Eins og með Ögnun, flest verkin eru samstarf á milli - ekki bara tónlist, mikil leiklist, mikil tónlist, vídjó og margmiðlun."

 

Framundan hjá Áslaugu eru alls konar verkefni, en líka bara óvissa eins og hjá mörgum.

 

"Ætli ég reyni ekki bara að finna út úr því. Ég er bara mjög bjartsýn að finna út úr þessu. Ég held að það sé bara að koma eitthvað nýtt, einhver nýr tími og ég er bara mjög spennt að heyra hvað kemur í ljós."

Ögnun_dagskrá_loka17.jpg